Categories
Uncategorized

Categories
Uncategorized

Hamingjusöm með jákvæðu hugarfari

mbl.is. Viðtal og forsíðumynd. 13. mars 2013 | Daglegt lífG58QETNM

Jákvæðni Hrefna Guðmundsdóttir er sálfræðingur hjá Vinnumálastofnun og formaður Félags um jákvæða sálfræði. — Morgunblaðið/Styrmir Kári

„Einfaldasta æfingin til að verða hamingjusamari er að hugsa daglega um það sem við erum þakklát fyrir,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, MA í félagsfræði og formaður Félags um jákvæða sálfræði.
„Einfaldasta æfingin til að verða hamingjusamari er að hugsa daglega um það sem við erum þakklát fyrir,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, MA í félagsfræði og formaður Félags um jákvæða sálfræði. Tilgangur félagsins er að kynna jákvæða sálfræði, fræðilegan grunn, hagnýtingu og breiða út gildi hennar.

Félag um jákvæða sálfræði var stofnað árið 2011. Á bak við félagið stendur fólk með áhuga á að rannsaka og miðla fræðum um hvað einkennir farsæld og hvernig fólk getur nýtt sér jákvætt hugarfar til að stuðla að heilbrigðara og hamingjuríkara lífi. Markmiðið er að hafa áhrif á hugarfar þjóðarinnar og stuðla að heilbrigði og hamingju. Félagið vill hafa áhrif á umræðuna með því að fara út í samfélagið og kynna þá möguleika sem felast í jákvæðri sálfræði. Hrefna Guðmundsdóttir, formaður félagsins, hefur ávallt verið áhugasöm um hvað ákvarðar hamingjuna og skrifaði hún BA-ritgerð sína í sálfræði um Íslendinga og hamingjuna. Komst hún að því að nærtækasta skýringin á því að Íslendingar mælast hamingjusamir í hverri könnuninni á fætur annarri, er að hér hefur atvinnuleysi ekki verið ríkjandi vandamál fyrr en nýlega og hér á landi ríkja sterk félagsleg tengsl. „Hann orðaði þetta skemmtilega, blaðamaðurinn frá New York Times, Eric Weiner, sem skrifaði bókina Hamingjulöndin. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hamingjan væri val, ef við gleymum öllu blaðri um erfðafræði, samfélagsmótun og tekjur, eftir að hafa ferðast um sérvalin lönd til að skoða ólíka hamingju þjóða. Það er ekki alltaf auðvelt val og stundum getur það verið óspennandi, en er val engu að síður. Þegar búið er í landi einangrunar og óblíðrar náttúru er bara um tvennt að velja – gera gott úr því eða deyja drottni sínum,“ segir Hrefna.

Viðhorf hefur áhrif
„Þegar við erum í jákvæðu hugarástandi, hugsum við öðruvísi. Þá sjáum við frekar heildarmyndina. Þá hugsum við í lausnum frekar en vandamálum, erum leiknari í samskiptum og meira skapandi.“

Hrefna kláraði meistaranám í félagssálfræði og í grunninn snýst félagssálfræði um áhrif umhverfis á fólk og hvernig fólk mótar sér viðhorf. Viðhorf okkar til eigin getu og farsældar hefur gríðarleg áhrif á hamingju okkar. Hrefna segir að það sé búið að sýna fram á að það sé farsælla að hugsa á þá leið að maður geti ávallt bætt sig frekar en að halda því fram að maður geti ekki breyst. Minnið virki einnig þannig að þegar okkur líður illa hrannast upp minningar af erfiðum aðstæðum og samskiptum, en þegar við erum í góðu skapi sé stutt í jákvæðar og skemmtilegar minningar. „Vissulega skiptir miklu máli að við höfum peninga til að hafa í okkur og á, en umframtekjur virðast ekki auka hamingjuna nema að litlu leyti.“

Farsæl samskipti mikilvæg
Hrefna segir að það sem skiptir mestu máli sé að fólk eigi farsæl samskipti hvað við annað. Einnig skapi mikla hamingju að fást við það sem við höfum áhuga á og að hafa tilfinningu fyrir að við ráðum við verkefnin sem tökumst á við. Hugmyndin að Félagi um jákvæða sálfræði er til komin frá leshópi sem Ásdís Olsen, sérfræðingur í lífsleikni, myndaði og Hrefna var meðlimur í. Leshópurinn sat áfanga um jákvæða sálfræði hjá Tal Ben Shahar, sem slegið hafði í gegn í Oxford þar sem Hrefna lagði stund á meistaranám sitt. Hópurinn hittist reglulega árin 2009-2010 og ræddi fræðin hjá Tal og gerði vikuleg verkefni. Í framhaldi hóaði Hrefna saman hópi áhugasamra um viðfangsefnið í byrjun árs 2011. Þar kom saman fagfólk úr ýmsum stéttum með sameiginlegan áhuga á efninu. Á þessum fundi var stofnaður undirbúningshópur sem vann í því að setja formlega á laggirnar félag um jákvæða sálfræði. Síðar um árið gekk það eftir og Félag um jákvæða sálfræði varð til. „Þetta var einstakur hópur og hefur komið að félaginu frá upphafi.“

Fyrsti heiðursfélagi félagsins var valinn á síðasta fundi og var það Edda Björgvinsdóttir, leikkona og verðandi menningarfræðingur, sem varð þess heiðurs aðnjótandi. Edda hefur verið ötul í umræðunni um mikilvægi húmors og gleði í lífi fólks, auk þess að hafa glatt þjóðina í áratugi. Hrefna hefur einnig lagt mikið upp úr áhrifamætti hlátursins en hún er hlátursjógaleiðbeinandi og nam þá list hjá Ástu Valdimarsdóttur.

Leita að öflugu fólki í stjórn
„Það er einvalalið með mér í stjórn félagsins og við viljum fá fleiri með okkur. Við erum að leita að kröftugu fólki, með áhuga á jákvæðri sálfræði. Fólki, sem getur lagt okkur lið við að byggja upp alvöru fræðasamfélag,“ segir Hrefna.

Félagið er opið öllum og vill það koma fræðsluefni og upplýsingum um málefnið inn í samfélagsumræðuna og vekja athygli á mikilvægi þess að takast á við verkefni með jákvæðu hugarfari. Aðalfundur félagsins verður haldinn 5. apríl næstkomandi. Þá mun dr. María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur segja frá áhrifum á líkamann. Hrefna hvetur alla fagaðila sem og annað áhugafólk um jákvæða sálfræði til að kynna sér starfsemi félagsins og koma á fundinn.

ÆFINGAR FYRIR ÞÁ SEM VILJA AUKA EIGIN HAMINGJU

Auktu hamingjuna
Það getur verið íhugandi að spyrja sig hvað maður er hamingjusamur á bilinu 1-10. Gefðu þér einhverja tölu á þessu rófi, t.d. 6,2 eða 7,8 eða 2,7. Því hærri einkunn, því meiri hamingja. Að svo búnu máttu íhuga hvað það er sem er á þínu valdi sem gæti hækkað þessa tölu um 0,5. Fræðin reyndar deila um hvort best sé að vera 8 eða 10. Einnig er góð æfing að kryfja dag sem er liðinn, t.d. gærdaginn. Fara tiltölulega nákvæmlega yfir klukkutíma fyrir klukkutíma. Gefa síðan hverjum klukkutíma einkunn á bilinu 1-10 fyrir hamingju og vellíðan. Niðurstaðan gæti komið á óvart. Það eru oft þessir smáu hlutir sem gleðja okkur meira en við áttum okkur á. Að hugsa um það reglulega hvað maður er þakklátur fyrir er nærtækasta æfingin sem eykur hamingjutilfinningu með skjótum hætti. Markviss æfing er að skrifa niður þrennt nýtt á hverjum degi yfir ákveðið tímabil sem maður er þakklátur fyrir eða gekk vel á síðastliðnum sólarhring. Það þjálfar okkur í að beina sjónum meira að því sem gengur vel, sem getur verið mjög hvetjandi.

Nánari upplýsingar má finna á jakvaedsalfraedi.is og hægt er að finna síðu félagsins á Facebook.

Categories
Uncategorized

Ertu að blómstra? próf

Kalli og Hrefna

Próf eftir Dr. Martin Seligman, einn af upphafsmönnum jákvæðrar sálfræði:

Merktu við hverja fullyrðingu með tölu
sem þér finnst passa best við þig.

Að blómstra – próf eftir Dr. Martin Seligman:

Merktu við hverja fullyrðingu með tölu sem þér finnst passa best við þig.
1 – Mjög ósammála
2 – Ósammála
3 – Frekar ósammála
4 – Hvorki sammála né ósammála
5 – Frekar sammála
6 – Sammála
7 – Mjög sammála

Staðhæfingarnar eru:
*Líf mitt hefur tilgang og merkingu
*Félagslegu tengslin mín styrkja mig og eru gefandi.
*Ég tek virkan þátt og hef áhuga á mínu daglega lífi.
*Ég legg á virkan hátt mitt af mörkum til að stuðla að vellíðan annarra.
*Ég hef hæfni og getu til að gera það sem skiptir mig máli.
*Ég er góð manneskja og lífi innihaldsríku lífi
*Ég horfi björtum augum fram á veginn
*Fólk ber virðingu fyrir mér.

Teldu stigin og því nær sem þú ert 56 stigum ertu að blómstra

406388_422604257832296_747259816_n

Categories
Uncategorized

Núvitund

Að útiloka sig frá umhverfinu í 10-20 mínútur, er góð slökun. Íhugun, núvitund, slökun eða hugleiðsla – allt skilar mjög góðum árangri á líkama og sál. Rannsóknir hafa sýnt bætt áhrif á skap (vitund um eigin tilfinningar og taumhald á þeim) og að ofnæmiskerfið styrkist. Núvitund dregur úr áhrifum streitu, eykur vellíðan og tilfinningu fyrir væntumþykju til heimsins, sjálfs síns og annarra.

Heimild: Ian Morris (2009) Nám í skóla um hamingju og velferð. Erla Kristjánsdóttir þýddi. Námsgangastofnun.

hugleiðsla

Categories
Uncategorized

Er hægt að kenna okkur að vera hamingjusöm? Á jákvæð sálfræði erindi í forvarnarstarf skóla

 

Forvarnarfræðsla þekkist vel sem fræðsla um það sem ekki má.  Ég á minningu af forvarnarfræðslu um eiturlyf, þar sem öllum nemendum í unglingadeildinni var hóað saman upp á sal til að horfa á myndband þar sem farið var yfir hvað fíkniefnin hétu og hvernig þau væru helst notuð. Svo sagði einhver töff týpa að hann hefði notað eiturlyf mikið, að þau væru hættuleg og vinir hans hefðu dáið.  Forvarnarfræðsla í þessum dúr kallast stundum stórslysafræðsla. Það á alla vega við þegar sett er á svið það skelfilegasta sem getur gerst.  Slík fræðsla á oft fyllilega rétt á sér, en mig langar samt að fá að koma með annan vinkil.  Fræðsla að þessu meiði má ekki af mínu viti vera á kostnað þess, að kenna börnum hvað er það besta sem getur gerst í lífinu. Við megum ekki vanrækja að kenna börnum færni til að vera farsæl, heil manneskja og hvetja þau til að blómstra, láta reyna á sína eigin hugmyndir og njóta þess að vera til á eigin forsendum.

Í dag er vitað að samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu frístundastarfi og líf fullt af tilgangi og ábyrgð er besta forvörnin. Kannski væri sniðugt að fræða nemendur og forelda meira um það?  Kannski er hægt að nýta meira þá leið að bjóða gestum í heimsókn til bekkja og hópa, gestum úr nærsamfélaginu eða ættingjum nemenda.  Jafnvel einhverjum sem hefur verið farsæll, náð árangri, helgað sig ákveðnu verkefni og svo framvegis til að segja nemendum frá því hvernig hann sigraðist á hindrunum og hvað hafi nýst honum til að ná árangri.

Ef við trúum því að hamingja og vellíðan sé tilkomin vegna meðfæddra eiginleika og aðstæðna, er tómt mál að tala um að auka trú á eigin getu, auka bjartsýni, seiglu og hæfni í mannlegum samskiptum.  Við sem hins vegar trúum því að slíkt sé hægt að þjálfa, viljum meina að velferð sé  ákveðin afstaða og hugarfar.

Carol Dweck, þekkt kenningarkona í menntavísindum, heldur því fram að það megi flokka farveg þankagangs í tvo flokka, svokallað Festuhugarfar eða Vaxtarhugarfar. Festuhugarfar felur í sér að viðkomandi telur sér trú um að geta ekki lært margt nýtt og hefur litla trú á breytingum.  Vaxtarhugarfar felur hins vegar í sér að viðkomandi er tilbúin að lært eitthvað nýtt,  gera betur, vaxa með hverju verki og fá að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni.  Samkvæmt Dweck er heillavænlegra að temja sér Vaxtarhugarfarið.  Kannski ber það merki um Festuhugarfar að trúa því að vellíðan og hamingja stafi að meðfæddu lunderni og aðstæðum sem við höfum lítil áhrif á.  Aðrir trúa því að velferð og hamingja sé afstaða.

Barbara Friedricsen er virtur sálfræðingur og rannsakandi og hefur sérstaklega rannsakað jákvæðar tilfinningar og jákvætt hugarfar. Niðurstöður hennar rannsókna eru í grófum dráttum þær að þegar við erum jákvæð, hugsum við öðruvísi. Við sjáum þá fleiri möguleika í stöðunni, erum sveigjanlegri í hugsun, meira skapandi og víðsýnni.

Komin er út athyglisverð kennslubók sem hentar vel fyrir þá sem trúa því að hægt sé að hafa áhrif á börn og viðhorf ungs fólks til góðra lífsvenja og uppbyggilegs lífs.  Bókin er gefin út af Námsgagnastofnun og heitir:  ,,Nám í skóla um hamingju og velferð ‘‘(2011) og er eftir Ian Morris, þýdd af Erlu Kristjánsdóttur fyrrum lektors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  Bókin er áhrifamikil og sannfærandi og býður upp á auðveldar hagnýtar æfingar, aðferðir sem nýtist vel starfsfólki frístundamiðstöðva, skólastjórnendum og kennurum. Morris byggir sínar kennsluaðferðir á reynslunámi,  því að árangursríkara er að fá nemendur til að hreyfa sig heldur en að tala um gildi hreyfingar. Slíkt á einnig við um kennslu í velferð og vellíðan.  Þú temur þér ekki nýja lífshætti nema þú finnir áhrifamátt þeirra.  Bókin byggir á hugmyndafræðinni:  ,,menntun verður að vera meira en uppsöfnun þekkingar, hvort sem hún er vísindaleg, tæknileg, söguleg eða hvað annað.  Menntun á að snúast um hvernig á að lifa” (Matthieu Richard og Jean-Franzois Revel bl. 332 í The Monk and the Philosopher (1998)).

Gleymum því ekki að uppbyggilegar og góðar lífsvenjur eru besta forvörnin. Sjá http://kritin.is/2012/09/09/er-haegt-ad-kenna-okkur-ad-vera-hamingjusamari-a-jakvaedni-og-samhygd-erindi-i-forvarnarfraedslu/

Categories
Uncategorized

Hvernig get ég aukið hamingju mína?

Áskorun dagsins er:
1. Ég lofa að leggja mitt að mörkum í dag, til að auka fegurð og hamingju í heiminum
2. Í dag ætla ég að gleðja einhvern. Þarf ekki að kosta krónu. Smátt eða stórt, skiptir ekki máli.
3. Ég mun taka eftir í dag, einhverjum sem er að auka hamingju samborgara sinna eða einhvern sem þú þekkir og nefna það við næsta mann, kunningja, samstarfsmann, vini eða ættingja. Halda á lofti nafni þeirra sem hafa gert samborgara sína hamingjusama!

Ekki flókið, hinsvegar skemmtilegt!

eddaogfommiSjá líka: http://jakvaedsalfraedi.is/?p=109

Categories
Uncategorized

Hver er þín ástríða?


Þessar spurningar hjálpa þér að þekkja þínar ástríður og þína styrkleika:
1) Ef þú myndir vinna lottóvinninginn á morgun – hvernig myndir þú eyða næstu dögum eftir það
2) Hvað er þér helst hrósað fyrir? Er það eitthvað sem þú hefur lítið fyrir? Þá er það þinn styrkleiki
3) Hvað finnst mér mest gaman að gera?
4) Hvaða skynfæri heldur þú að þú notir mest, til að upplifa og skynja veröldina?
5) Hvaða gerir það að verkum, að þú munt örugglega gera þitt besta?
6) Þeir dagar sem þú vaknar og ert tilbúin í dagsverkin af fullum krafti, hvaða verkefni eru það þá helst sem þú hlakkar til að takast á við?
7) Hverra lítur þú upp til? Hvað er það í fari þeirra sem þú lítur upp til?

Hér er frábært myndband frá ,,Happyologist” í Bretlandi. Hún byggir spurningarnar á efni frá Sir Ken Robinson og fleirum. Horfðu á myndbandið, það mun hjálpa þér að svara spurningunum.